Um okkur


Rósakot er lítið en metnaðarfullt útgáfufélag sem gefur út barnabækur. Markmiðið er að gefa út bækur sem ungir bókaormar hafa bæði gagn og gaman af. Við bjóðum einnig bækur á ensku sem aðallega eru ætlaðar ungum nemendum. Kennsluverkefni og viðbótarefni við ensku bækurnar er aðgengilegt hér á vefsíðunni.

Rósakot var stofnað þann 15. maí 1946 og upphaflegur tilgangur félagsins var að rækta blóm og grænmeti eins og nafnið gefur til kynna. Í langri sögu fyrirtækisins hafa eigendur þess tekið sér margt ólíkt fyrir hendur, s.s. verktakastarfsemi, verkfræðiþjónustu, útreikning á fasteignagjöldum og kennslu svo eitthvað sé nefnt - en aldrei hefur komið til tals að breyta nafninu.

Nú höfum við fundið okkur vettvang í áhugamálinu sem snýr að auknum lestri og lesskilningi ungs fólks og enskukunnáttu - ræktun af öðru tagi en í upphafi var lagt upp með - og gert samkomulag við Usborne Publishing í Bretlandi um innflutning og sölu á bókum sem eru sérstaklega ætlaðar ungum nemendum í ensku. Einnig er hafin útgáfa á bókum fyrir unga lesendur í nafni Rósakots.

Markmiðin okkar felast í því að glæða áhuga á lestri og auka lesskilninginn með því að bjóða ungum lesendum áhugaverðar og spennandi bækur á íslensku. Bækur sem fræða og skemmta en ýta um leið undir alhliða þroska.

Á vettvangi erlendra tungumála er einnig hægt að ýta undir og skapa þessi skilyrði með því að bjóða upp á áhugaverðar bækur fyrir alla aldurshópa sem stunda tungumálanám. Bókakosturinn frá Usborne ýtir undir lestur og áhuga á bókum um leið og hann styrkir nemendur í enskunáminu. Einnig hafa margar bækurnar áhugaverða tengingu við netið þar sem lesendur eru hvattir til þess að nýta tölvuna til þess að lesa sér meira til um efni bókar eða höfundinn, finna málfræðiæfingar, hlusta á framburð orða og svo mætti lengi telja.